Stefnumótun 2013 – 2014

Á aðalfundi félagsins 19. mars 2013 var samþykkt tillaga um að stjórn þess skipaði starfshóp til að móta framtíðarsýn KB til næstu 10 til 15 ára. Tillögur eða drög hópsins að framtíðarsýn KB yrðu lagðar fyrir næsta aðalfund.

Með hliðsjón af samþykkt aðalfundar skipaði stjórnin starfshóp sem skyldi móta stefnu KB til næstu 10 til 15 ára. Í honum voru Guðrún Sigurjónsdóttir, bóndi og rekstrarfræðingur, Glitstöðum, formaður stjórnar KB; Heiðar Lind Hansson, blaðamaður og sagnfræðingur; Einar Eyjólfsson, ráðgjafi hjá SSV og viðskiptafræðingur og Ásdís Helga Bjarnadóttir, endurmenntunarstjóri LBHÍ og búvísindamaður. Guðsteinn Einarsson kaupfélagsstjóri var starfshópnum til aðstoðar.

Starfshópurinn átti fundi með Jóni Sigurðssyni f.v. rektor á Bifröst og Skúla Skúlasyni stjórnarformanni Kaupfélags Suðurnesja og Samkaupa hf. Jón og Skúli fluttu hópnum erindi um vettvang samvinnumála í heiminum og hér á landi í fortíð og nútíð ásamt tækifærum sem byðust samvinnumönnum víða um heim.

Starfshópurinn stóð einnig fyrir tveimur stefnumótunarfundum. Sá fyrri var kynningar- og umræðufundur með félagskjörnum deildarstjórum KB og stjórn félagsins, í Gamla mjólkursamlaginu við Skúlagötu í Borgarnesi fimmtudaginn 7. nóvember 2013. Alls mættu þar 22 félagskjörnir deildarstjórar og stjórnarmenn í KB auk starfshópsins.

Síðari fundurinn var með ungu fólki á félagssvæði KB í Hótel Borgarnesi laugardaginn 18. janúar 2014. Þar mættu 10 manns ásamt starfshópnum og einum stjórnarmanni í KB. Þar var starfsemi KB og starfshættir samvinnufélaga kynnti.Fundarmönnum var skipt í hópavinnu þar sem kallað var eftir viðhorfum fundarmanna til KB og samvinnufélagsformsins, hugmyndum að tækifærum sem byðust í héraði og leitað eftir því hvar fundarmenn sæju KB fyrir sér í framtíðinni.

Vinnuhópurinn skilaði af sér drögum til stjórnar í febrúar 2014 sem síðan voru kynntar á deildarfundum í febrúar og mars.

Á aðalfundi 20. mars 2014 voru tillögur hópsins ræddar og yfirfarnar í vinnuhópum.  Niðurstaða fundarins kom fram í nokkrum ábendingum um það sem talið var að betur mætti fara.

Vinnuhópurinn fór yfir ábendingar og skilaði niðurstöðu til stjórnar Kaupfélags Borgfirðinga sem samþykkti stefnumótunina formlega á fundi sínum þann 14. apríl 2014.

Stefnuna eins og hún var samþykkt má finna í meðfylgjandi pdf skjali